Svipur Jóns Einarssonar

Árið áður en skólinn fluttist frá Skálholti til Reykjavíkur voru nokkrir piltar til heimakennslu þar hjá konrektor Helga á Móeiðarhvoli. Tveir þeirra voru þeir Eggert Guðmundsson síðast prestur í Reykholti og prófastur í Borgarfjarðarsýslu – sem hefir sagt frá þessu – og Jón Einarsson bróðir konu Páls Bjarnasonar í Sviðholti á Álftanesi.

Eitt kvöld um veturinn fór Jón út sem oftar. Svo hagaði þar til að undirgangur lá úr bænum og út í kirkjuna þvert út úr skólahúsinu sem þá var aftekið, beint fram undan herbergi því er þeir voru látnir lesa í. Jón var nokkuð lengi úti, en var þó ekki gáð að honum. Kom hann svo loks inn og var kafrjóður. Þeir spurðu hann því hann væri svona; hann kvaðst hafa séð mannsmynd í undirganginum, lýsti honum að búningi og vexti. Þókti þeim búningurinn vera mjög líkur hans eigin og vaxtarlag hið sama. Var hann aldrei jafngóður upp frá þessu unz hann dó þenna sama vetur úr bólunni þar í Skálholti. Sama vetur dó og fyrri kona Hannesar biskups Finnssonar sem var þar þá.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org