Blótsöm stúlka

Sjóbóndi var einu sinni á gangi. Hann sér skip gert úr selskinnum kemur siglandi og er siglt upp á ströndina. Skipshöfnin steig fyrir borð og sér bóndi að það eru allt jólasveinar vel bústnir og feitir. Bera þeir skip sitt upp á fjall og ganga þar frá því. Svo fara þeir að skiptast á orðum. Hinn bústnasti fer að monta sig og segir að sér myndi líða vel í vistinni eins og vanalega. Bóndin hugsar með sér að gaman væri að leika á hann og vita hvort hann yrði eins montinn næsta vetur. Bóndi fer heim og lætur á engu bera. Hjá honum var vinnukona sem bölvaði mikið, en bóndi vissi að jólasveinninn lifði mest á bölyrðum hennar. Hann tala við vinnukonuna og segist skuli gefa henni grænt klæði í pils ef hún stilli sig um það að bölva alla jólaföstuna. Stúlkan segist ætla að reyna að standa við að bölva ekki. Nálgast jólin og stúlkan blótar aldrei og bóndi sá til að enginn annar myndi heldur bölva. Um jólin þegar stúlkan fór í fjósið þá var ein kýrin svo óþekk að stúlkan réði ekkert við hana. Gleymir hún þá því sem hún hafði lofað og segir: „Og því lætur skrattans kýrin svona?“ Finnst henni hún þá heyra daufan fagnaðarhlátur og sér strax eftir að hafa bölvað. Á þrettándanótt fer bóndi þangað sem jólasveinar lögðu að landi. Sér hann jólasveina þyrpast þar saman og voru misjafnlega útlítandi. Sumir voru feitir og mjög glaðir, aðrir voru magrir og daprir og sumir þar mitt á milli, allt eftir því hvernig þeim hafði liðið í vistinni. Magrastur og vesælastur var jólasveinn bónda. Hinir jólasveinarnir spyrja hann af hverju svo sé. Þá segir hann að það sé vegna skorts á bölvi frá bónda og hans heimilisfólki. Þóttu hinum jólasveinunum mikil skömm að honum, héldu því næst út á haf og hurfu sýnum.

Heimild: Sigfús Sigfússon, Helga Einarsdóttir umorðaði, Íslenskar þjóðsögur og sagnir III bindi, bls. 192–3.

Текст с сайта Þjóðminjasafn Íslands

По всем вопросам пишите в раздел форума Valhalla: Эпоха викингов