Gellivör

Svo er mælt að seint á páfatrúartímum hafi hjón nokkur búið á Hvoli í Borgarfirði austur. Þessi hjón voru auðug af kvikfénaði og höfðu margt hjóna, en einn húskarl þeirra kemur helzt við söguna. Það var í alræmi að tröllkona mundi búa í fjalli því sem er sunnan megin sveitarinnar og í hádegisátt frá Desjamýri, en ekki þótti hún vera meinvættur.

Nú bar svo við að einhverja jólanótt gekk bóndinn á Hvoli út og kom ekki inn aftur og þó hans væri leitað fannst hann ekki. Veturinn leið og húskarlinn sem fyrr var nefndur var fyrir búi ekkjunnar og réðst um sumarið til að vera hjá henni aftur hið næsta fardagaár, en á jólanótt veturinn eftir hvarf hann og fannst ekki þó leitað væri. Ætluðu menn þar misjafnt um hvað hvarfi hans muni valda. Flutti þá ekkjan burt frá Hvoli að liðnum jólum með hjón sín öll, en lét þó hirða þar gripi sína á degi hverjum. Um vorið fór hún aftur heim með hjónum sínum og bjó það sumar, en á veturnóttum ætlaði hún að flytja að Gilsárvelli, en láta húskarla sína hirða gripina á Hvoli og gefa heyin um veturinn. Fjórar kýr átti hún og var ein þeirra borin fyrir veturnætur.

Og tveim nóttum áður en hún ætlaði burt dreymdi hana draum. Henni þótti koma til sín kona sem hún kannaðist ekki við; sú var klædd fornum íslenzkum kvenbúnaði, þó fátæklegum; henni þótti þessi kona heilsa sér vingjarnlega og taka þannig til máls: „Nú er kýrin þín borin, ein af fjórum, en ég á ekki von á að fá mjólk fyrr en um jólatíma og hef þó þrjú ungbörn og því ætla ég að biðja þig þess að gefa mér mjólk á málum í könnuna sem mun standa á hillunni hjá búrdyrunum þínum þegar þú skammtar mat á málum. Ég veit að þú ætlar að tveggja nátta fresti að flytja að Gilsárvelli því þú þorir ekki hér að vera í vetur og er þér á því vorkunn þar þú veizt ekki hvað veldur því mannahvarfi sem hér hefur orðið hina fyrri vetur. En það kann ég þér þar af að segja að skessa sú sem býr í Staðarfjallinu fæddi barn fyrir tveim árum síðan sem er svo einþykkt og sérlundað að hún verður að útvega því nýtt mannakjöt á hverjum jólum. Þess vegna hefur hún nú farið hingað og numið burtu bónda þinn og húskarl, og hinu sama mun hún fram fara í vetur. En ef þú ætlar að verða vel við bón minni og vera hér kyrr þá mun ég leggja þér heilræði og hjálpa til að flæma þenna óvætt héðan úr sveit.“

Þegar draumkonan hafði þannig mælt hvarf hún burt, en konan á Hvoli vaknaði og mundi drauminn. Var þá dagur runninn og fór hún á fætur og fann könnuna þar sem henni var til vísað. Það var trékanna og fyllti hún hana af nýmjólk og setti hana aftur á sama stað, en að vörmu spori var hún horfin, en um kveldið stóð hún aftur á sama stað.

Þessum vana hélt ekkjan fram að jólum, en á Þorláksmessunótt dreymdi hana enn draum: Henni þótti koma til sín kona sú hin sama er fyrri kom á veturnóttum og heilsa sér kunnuglega og segja: „Óforvitin þyki mér þú vera að vilja ekki vita hver sú kona er eða hvar hún býr sem þegið hefur mjólk þína í vetur, en þó skaltu vita að ég er huldukona og á byggð í hólnum sem er hérna fyrir utan bæinn þinn. Þú hefur nú gjört vel í vetur, en ég þarf þess ekki lengur, því nú bar kýrin mín í gærdag, og þarf því ekki þinnar mjólkur framar. Nú skaltu eignast það lítilræði sem ég hef lagt á hilluna þar sem trékannan mín stóð og þar með verð ég að hjálpa þér frá þeim voða sem fyrir þér liggur jólanóttina. Þegar liðið er miðnætti mun þig fýsa mjög að fara út úr bænum. Þú skalt og ekki heldur sporna við því, heldur ganga út; mun þá standa á hlaði kona stórvaxin. Sú mun þrífa þig og bera þig í fangi sér ofan túnið og ösla með þig yfir Fjarðarána og suður nesið og stefna til Staðarfjalls. Þegar hún er komin með þig skammt á leið frá Fjarðaránni skaltu segja: „Hvað heyrðist mér?“ Þá mun hún segja: „Hvað ætla þér hafi heyrzt?“ Þá skaltu segja: „Mér heyrðist sagt: Gellivör mamma, Gellivör mamma.“ Það mun henni þykja kynlegt því hún veit að enginn mennskur maður þekkir nafn sitt – og segja: „Það mun vera barnkrakkinn minn.“ Þá mun hún kasta þér niður og steðja í Staðarfjallið, en ég mun kvelja krakkann meðan hún er hjá þér og verða þó að fara frá þegar hún kemur. Þegar hún hefur yfirgefið þig skaltu hlaupa sem mest þú mátt beina leið út með Fjarðará og mun þér endast tími til að vera komin út á eyrarnar fram og suður af Votanesinu. Þegar hún kemur þá mun hún þrífa þig og segja: „Gaztu ekki verið kyrr, ólukku kindin,“ og síðan steðja með þig suður yfir nesið og upp á Krókana fram af Tíðamelnum; þá skaltu segja eins og fyrra sinn: „Hvað heyrðist mér?“ og hún: „Hvað ætla þér hafi heyrzt?“ Þá skaltu segja: „Mér heyrðist sagt: „Gellivör mamma, Gellivör mamma.“ „Það mun vera barnkrakkinn minn,“ mun hún þá segja og slengja þér aftur niður og renna til fjalls, en þá skaltu hraða þér sem mest að ná kirkjunni og komast inn í hana áður en skessan kemur aftur því þá mun henni vera heift í hug vegna þess að ég verð þá búin að fyrirfara barninu og mun hún ekki ætla sér að láta þig undan draga. En ef þig þrýtur mun ég duga þér.“

Þegar konan vaknaði af þessum draumi var ljóst af degi; fór hún þá fram í bæ og fann á hillunni samanvafinn stranga og þar í forkunnar vel vandaðan kvenbúnað; tók hún hann og læsti í fatakistu sinni. Leið nú Þorláksdagur og aðfangadagur og bar ekki til tíðinda. Um miðnætti jólanóttina lögðust menn til svefns á Hvoli, en konan vakti ein því hún gat ekki sofið. Fýsti hana þá út að ganga og réði hún sér ekki og gekk út, og í sama vetfangi og hún kom út úr bæjardyrum var hún hrifin hátt á loft af stórkostlegri skessu sem óð með hana í fangi sér allt suður yfir Fjarðará. Fóru þeirra viðskipti eins og álfkonan hafði getið til allt þar til tröllkonan hafði fleygt henni í seinna sinni og konan ætlaði að forða sér í kirkjuna; þá fannst henni eins og tekið vera um handlegg sér so að henni varð léttara að ganga. En rétt á eftir heyrði hún grjótskruðninga í Staðarfjallsurðunum. Tunglskin var glatt og sá hún að tröllkonan stökk út yfir engjarnar og stefndi að sér. Varð hún þá svo óttaslegin að hún mundi hafa dottið þar niður ef ei hefði verið gripið undir hina hönd henni og eins og liðið með hana í lofti þar til henni var snarað inn fyrir kirkjudyrnar og læst hurðinni á eftir. Voru þá allir menn komnir í kirkju og djákni að samhringja, en þá heyrðist þungur dynkur á kirkjugarðinn og litu menn út um glugga nokkurn og sáu þar standa afar stóra tröllkonu sem sagði: „Skítur minn, skítur minn,“ þegar hún heyrði hringinguna, og stökk jafnskjótt burt, en spyrndi um leið miklu stykki úr hleðslunni og sagði þá: „Stattu aldrei, argur.“ Þar var konan í kirkju meðan sunginn var óttusöngur og hámessa og eftir það fór hún heim og er hennar ekki eftir það getið.

En nú segir frá því, að reimt þótti verða á Eskifjarðardölum og fór vaxandi og urðu svo mikil brögð að því að ekki þótti fært nema mörgum mönnum saman og á björtum degi. Einu sinni var það að sex menn voru samferða úr kaupstað á Eskjufirði. Þeir fóru sem leið liggur út dalina og var nærri dagsetri. Sáu þeir þá að dró upp biksvartan skýflóka á fjalli því sem er fyrir norðan dalina og Skagafell er nefnt. Þessi flóki hækkaði og sýndist þeim seinast sem mannsmynd væri og þá heyrðu þeir kallað ógurlegri röddu svo drundi í fjöllum beggja vegna og sagt: „Heil, heil systir.“ Þá heyrðu þeir annað kall að baki sér sem sagði: „O, heil, heil systir.“ Þá litu þeir við og sáu þeir standa annað skrípi hinumegin dalanna á fjalli því sem Slenjudalsfjall er nefnt; heyrðu þeir þá hina fyrri segja aftur: „Hvað er títt systir?“ Þá svarar hin seinni: „Selið er gefið.“ Þá svarar hin fyrri: „Hverjum þá?“ Þá anzar hin seinni og segir: „Fauskhöfðanum honum Jóni karli í Vallanesi.“ Þá segir hin fyrri: „Flýjum þá, flýjum systir.“ Þá svarar hin seinni og segir: „Hvert þá?“ „Á Bláskóga,“ segir hin og eftir það hvurfu þær sjónum ferðamannanna og þá rénuðu líka reimleikar því Tungusel hafði verið gefið séra Jóni sem þá var prestur í Vallanesi og hann beðinn aftur að afstýra illvættunum og þótti mönnum það fljótt rætast.

Nú er reimleikar voru horfnir úr Eskifjarðardölum fór að verða vart við tröllagang í Bláskógum sunnanlands; treystust menn ekki til að fara þá leið og lagðist sá vegur niður og hafði þó áður verið fjölfarinn. Nú sem því hafði fram farið í tvo eður þrjá vetur varð það tíðinda að Þingeyingar rugluðust í tímatali og vissu ekki um jóladag. Tóku þeir þá það ráð að senda mann suður í Skálholt þeirra erinda að fá biskupsúrskurð á þessu vandamáli. Sá hét Ólafur er kjörinn var til þeirrar ferðar. Hann var maður öruggur og áræðinn og fór upp úr Bárðardal og suður Sprengisand og var seint á degi við Bláskóga. Ekki vildi hann þar bíða og fór fram leið sína. Og sem nær var dagsetri sá hann að feikilega mikil tröllkona stóð á fjalli því sem Bláfell er nefnt og er nærri veginum. Þessi tröllkona stóð á fjalli því sem Bláfell er nefnt og er nærri veginum. Þessi tröllkona kallaði dimmri röddu og sagði:

„Ólafur muður
ætlarðu suður?
Ræð ég þér það rangkjaftur
að þú snúir heim aftur.
Snýttu þér snúinraftur
og snáfaðu heim aftur.“

Þá sagði hann:

„Sitji þér heilar á hófi
Hallgerður á Bláfjalli.“

Þá rumdi aftur í henni:

„Fáir kvöddu mig svo forðum
og farðu vel ljúfurinn ljúfi.“

Síðan segir ekki af ferðum hans fyrr en hann kom í Skálholt og fékk þar góða fyrirgreiðslu og að erindinu afloknu bjóst hann burt og hinn sama veg. En þegar hann kom á Bláskóga varð þar fyrir honum tröllkona og sýndist honum hún ekki vera jafnógurleg því sem hann hafði ímyndað sér. Þessi tröllkona fékk honum þá í hönd hið nafnkennda Tröllkonurím og mælti: „Hefði hann Kristur Máríuson unnið eins mikið fyrir okkur tröllin eins og þið segið hann hafi unnið fyrir ykkur mennina þá hefðum við ekki gleymt fæðingardeginum hans.“ Þegar hún hafði þannig mælt skildu þau og bar ekki á reimleikum á Bláskógum eftir það. En Ólafur fór norður og þótti mönnum honum hafa farizt ágætlega, en kallaður var hann upp frá því Ólafur muður.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org