Jón og tröllskessan

Einu sinni var bóndi fyrir norðan sem hafði þann sið að róa á haustin og veturnar suður í Vestmannaeyjum. Bóndi átti son uppkominn þegar hér var komið sögunni. Pilturinn hét Jón og var hinn efnilegasti maður. Einu sinni lét bóndi Jón fara með sér til að róa i Eyjunum. Fóru þeir sem leiðir lágu og segir ekki af ferðum þeirra né útróðri. En haustið eftir lætur bóndi Jón einsamlan fara suður í verið því sjálfur var hann þá aldraður orðinn og treysti sér ekki til að róa framar. En áður Jón lagði á stað heiman að biður faðir hans hann að muna sig um að á ekki undir hömrum nokkrum sem séu í hlíð þeirri hinni löngu sem vegurinn liggi undir. Lagði hann mjög ríkt á um þetta við hann svo Jón lofaði að á þar ekki hvað sem á gengi eða hvernig sem veður yrði. Síðan fer Jón; hann hafði tvo hesta undir reiðingi og hinn þriðja til reiðar. Átti hann að koma þeim fyrir um veturinn í Landeyjunum eins og faðir hans hafði verið vanur að gjöra.

Segir nú ekki af ferðum Jóns nema honum gengur vel. Kemur hann undir fjallshlíðina sem til stóð og fer með henni lengi. Þá var liðið á dag. Ætlaði Jón að keppast við að komast fram hjá hlíðinni eins og faðir hans hafði beðið hann um. En í því hann kemur í nánd við klettana sem faðir hans hafði talað um gjörir á hann fjarskalegt óveður með stormi og regni. Er hann þá kominn að háum klettum. Sér hann þar hinn allra fallegasta áfangastað í brekku undir klettunum. Er þar gras nóg og skjól. Jón fer þá að hugsa sig um hvað gjöra skuli. Lízt honum hér vel á og skilur ekki í hvað að því geti verið að á þar. Og svo fer að hann ræður það af. Sprettir hann af hestunum og heftir þá. Sér hann nú hellisop uppi í klettunum skammt frá sér. Ber hann þangað dót sitt allt og lætur það öðrumegin út undir i hellinn skammt innar frá dyrunum; býr síðan um sig í farangrinum og fer að borða. Dimmt var í hellinum. En þegar Jón var farinn að borða heyrir hann eitthvað ýlfur innar langt í hellinum. Honum varð hálfhverft við það, en herðir þó upp hugann. Tekur hann stóreflis fisk af nesti sínu, rífur af honum allt roðið í einu lagi, drepur síðan smjöri vel þykkt á allan fiskinn og leggur roðið ofan yfir það. Að því búnu kastar hann fiskinum af hendi svo langt sem hann gat innar eftir hellinum og segir að þeir skuli vara sig sem fyrir séu á því sem hann sendi, en þeir megi hirða það og eiga ef þeir vilja. Heyrir nú Jón bráðum að ýlfrið þagnar, en einhver fer að rífa fiskinn.

Þegar Jón hafði matazt leggst hann fyrir og ætlar nú að fara að sofa. Heyrir hann þá úti fyrir hellinum að skrjáfar í grjótinu og að einhver kemur heldur en ekki þungstígur að hellismunnanum. Sér hann brátt að það er skessa ein stór og mikil og er sem hún glói öll utan í myrkrinu. Þótti Jóni nóg um sjón þessa. En í því skessan kemur inn í hellisdyrnar segir hún: „Mannaþefur í helli mínum.“ Siðan skálmar hún innar eftir hellinum og fleygir niður byrði sinni á gólfið. Varð þá dynkur mikill svo hellirinn nötraði við. Þá heyrir Jón að kerling fer að tala við einhvern innarfrá. Heyrir hann þá að hún segir: „Betur gjört en ekki og er illt ef það skal ólaunað.“ Sér hann þá hvar skessan kemur fram með ljós í hendinni. Hún heilsar Jóni með nafni, þakkar honum fyrir börnin sín og biður hann að koma með sér inn í hellinn. Það þiggur hann, en kerling krækti litlu fingrunum undir silana á höggum hans og heldur svo á þeim með sér. Þegar inn eftir kemur sér Jón þar tvö rúm og eru tvö börn í öðru; það voru börn skessunnar sem hann hafði áður heyrt til og sem etið höfðu fiskinn. En á gólfinu lá silungshrúga sem kerling hafði veitt um kvöldið og borið heim á bakinu og af því sýndist hún öll glóandi utan í myrkrinu. Kerling spyr nú Jón hvort hann vilji heldur sofa í sínu rúmi eða í rúminu barnanna sinna. Hann vildi heldur sofa í rúminu barnanna. Tekur þá skessan börnin og býr um þau á gólfinu, en lætur öll ný föt í rúmið og býr um hann vel. Fer þá Jón að sofa og vaknar við það að kerling kemur með heitan silung handa honum að borða. Hann þiggur silunginn, en á meðan hann er að borða var kerling alltaf að tala við hann og var hin glaðasta. Hún spyr hann hvar hann ætli að róa. Hann segir henni það. Hún spyr hvort hann sé ráðinn hjá nokkrum. Jón segir það ekki vera. Segir þá kerling honum að nú séu allir búnir að fullráða hjá sér í Eyjunum svo enginn geti þar bætt á sig manni og hann muni hvergi fá inni nema hjá einum uppgefnum karli sem nú fái aldrei orðið bein úr sjó og ekki hafi nema hálfónýtan bát og ónýta stráka á, því hann fái engan almennilegan mann orðið. „Ræð ég þér til,“ segir hún, „að fala skiprúm hjá karli þessum og mun hann teljast undan að taka þig, en þú skalt ekki hætta fyrr en hann gjörir það. Ég get nú ekki borgað þér fyrir börnin mín sem skyldi,“ segir skessan, „en þó eru hér tveir önglar sem ég ætla að gefa þér. Skaltu sjálfur hafa annan, en karlinn skal hafa hinn. Þið skuluð ævinlega renna tveir einir, því ég vona að önglarnir reynist heldur fisknir. Þið skuluð alténd róa seinastir af öllum og sjá um að koma ævinlega fyrstir að á kvöldin. Aldrei skuluð þið róa lengra en að kletti þeim sem er rétt fyrir utan vörina. Þegar þú kemur nú í Landeyjasand þá verða seinustu Eyjaskipin ferðbúin. Þú skalt fá þér far með þeim út í Eyjarnar og binda hestana þína á streng í fjörunni og biðja engan fyrir þá né skipta þér af þeim framar. Ég skal reyna að sjá eitthvað fyrir þeim í vetur. En ef svo ólíklega fer að þú fiskar bærilega í vetur þá þætti mér vænt um að ég mætti láta hest frá mér fylgja hestunum þínum undir fisk; því mér þykir svo gott að smakka harðæti.“ Jón leyfði henni þetta og lofaði að fara í öllu að ráðum kerlingar.

Um morguninn í bítið leggur Jón á stað úr hellinum og skilja þau kerling með blíðu. Segir ekki af ferðum Jóns fyrr en hann kemur í Landeyjasand. Liggja þar þá seinustu Eyjaskipin ferðbúin til útferðar. Sprettir þá Jón af hestum sínum í snatri og bindur þá á streng í sandinum án þess að biðja nokkurn mann gott fyrir þá. Gjörðu nú hinir allra mesta háð að Jóni fyrir þetta og sögðu að þeir myndu þó verða í bærilegu standi í vertíðarlokin, klárarnir þeir arna. Jón skipti sér ekkert af gabbi þeirra, heldur lét eins og hann heyrði það ekki. Fór hann svo með þeim út í Eyjarnar. Þegar þar kom fer hann að fala sér skiprúm, en fékk það hvergi; því alstaðar var fullásett fyrir. Loksins kemur hann til karlsins sem kerlingin hafði vísað honum á. Hann biður hann að taka sig. Karl tekur því seinlega og segist ekki vilja gjöra svo efnilegum manni slíkan skaða. „Ég fæ aldrei bein úr sjó orðið,“ segir karlinn, „og hef ekki nema ónýta stráka á ónýtu bátkrói. Ég get ekki róið nema í bezta og blíðasta veðri,“ segir hann, „og er það ekki líflegt fyrir efnilegan mann að binda sig við ónytjungsskapinn í mér.“ Jón segir að það verði að vera sinn skaði og þangað til er hann að sarga við karlinn að hann tekur hann. Flytur Jón sig nú til hans og þótti mönnum honum ekki hafa vel tekizt að ráða sig og gjörðu mjög gys að honum.

Nú kom vertíðin. Einn morgun vakna þeir Jón við það að allir eru rónir í Eyjunum og er þá blíðasta og bezta veður og blæjalogn um allt. Þá segir karlinn: „Ekki veit ég hvort ég á að fara að reyna að fara á flot eins og aðrir. Ég held það komi ekki mikið út af því.“ Jón segir að óhætt sé að reyna það. Síðan skinnklæðast þeir og fara frá landi. En þegar þeir eru aðeins komnir út úr vörinni þykist Jón þekkja klettinn sem skessan hafði talað um. Hann spyr þá karlinn hvort það sé ekki ráð að leita hér. Karlinn varð hissa og sagði að það næði engri átt. Jón biður hann að leyfa sér að renna hér einu sinni til gamans. Karl lætur það þá svo vera. En óðar en Jón hafði rennt færinu dró hann fisk. Fékk hann þá karlinum hinn öngulinn, tröllkonunaut. Er þar nú fljótt af að segja að þeir þríhlóðu þarna um daginn og höfðu þá fengið 60 til hlutar af allra vænsta fiski. Réru síðan í land löngu á undan öllum og voru langt komnir að gjöra að þegar hinir komu. Urðu nú allir hissa á hlutnum karlsins. Spurðu þeir hann hvar hann hefði fiskað svona og sagði hann þeim eins og var. Daginn eftir réru Eyjamenn snemma og leituðu við klettinn, en urðu þar ekki lífs varir. Fóru þeir þá leið sína og þá reru þeir Jón. Fór allt á sömu leið fyrir þeim eins og daginn áður. Þarf ekki að orðlengja það að þeir Jón reru alltaf að klettinum um veturinn og fengu tólf hundruð til hlutar. Voru þeir langmestir allra í Eyjunum. Daginn fyrir lokadaginn reru þeir Jón seinast. En þá bar svo við að einu sinni þegar þeir drógu upp færin voru báðir önglarnir horfnir og sáu þeir ekki betur en að þeir hefðu verið leystir af. Fengust þeir þá ekki um það og héldu að landi.

Nú er að segja frá því að Jón fer með skreið sína í land og fær flutning á sama skipi og hann fór á út um haustið. Voru þá skipverjar að hæðast að því á leiðinni hvað hestarnir hans mundu verða vel aldir; þeir mundu geta haldið á skreiðinni hans norður. Þegar að landi kom sáu þeir hesta Jóns; stóðu þeir í sandinum, bundnir á streng, öldungis eins og þegar Jón skildi við þá. Var nú flestum forvitni á að skoða klárana. En þeim brá heldur en ekki í brún því hestarnir voru sílspikaðir eins og þeir hefðu verið aldir um veturinn. En auk hesta Jóns var þar einn hestur með reiðingi, brúnn á lit, allra mesti stólpagripur. Lagsmenn Jóns urðu nú hálfhræddir við hann því þeir töldu víst að hann væri allra mesti galdramaður þar sem hann hafði fiskað svo vel og hestarnir hans voru svona vel til fara, en enginn vissi til að neinn hefði hirt þá. Jón bindur nú skreið á hestana og lagði eins mikið á þann brúna einan og báða sína. Að því búnu fer hann leið sína einsamall norður. Segir ekki af ferðum hans fyrr en hann kemur í hellinn til skessunnar. Fagnaði hún honum vel og dvaldi hann þar hjá henni nokkrar nætur. Gaf hann henni baggana af brúna klárnum.

Spjölluðu þau nú margt saman. Sagði hún honum að um veturinn hefði börnin sín dáið og hefði hún dysjað þau undir hamrinum hjá karlinum sínum sem hún hafði áður misst og dysjað þar í urðinni. Hún sagðist og hafa leyst af hjá þeim önglana í seinasta róðrinum um leið og hún hefði komið með hestana í sandinn. Spurði kerling hvort Jón hefði frétt nokkuð heiman að frá sér, en hann sagði það ekki vera. Hún sagðist þá geta frætt hann um það að faðir hans hefði dáið um veturinn og þar eð hann væri einbirni ætti hann nú að taka við búinu eftir hann. Mundi hann setjast í búið og eignast konu um sumarið og verða hinn mesti gæfumaður. Sagðist hún nú að lyktum ætla að biðja hann einnar bænar. Jón spurði hvað það væri. Þá segir kerling: „Ég á nú ekki langt eftir og ætla ég að biðja þig að koma hingað það allra fljótasta ef þig dreymir mig; því ég ætla að biðja þig að dysja mig hjá karlinum mínum og börnunum okkar.“ Síðan sýndi hún honum hvar þau væru dysjuð. Þar eftir lauk hún upp afhelli einum og voru þar inni tvær kistur stórar fullar með alls konar gull og gersemar. Sagði hún að kistur þessar ætti hann að eiga eftir sig og brúna klárinn með. Sagðist hún skyldi verða búin að binda kisturnar og setja þær út áður hún dæi og hlaða undir kisturnar svo hann þyrfti ekki annað en teyma hestinn á milli þeirra og krækja silunum upp á klakkana. Á þann brúna mundi hún og verða búin að leggja. En hann mundi bera kisturnar og ekki mundi hann þurfa að gjöra að á honum norður. Síðan skildu þau Jón og skessan með kærleikum. Segir ekki af ferð Jóns, en vel gekk honum norður. Var þar eins ástatt og kerling hafði sagt og allt fór á þá leið sem hún hafði talað. Settist Jón í búið eftir föður sinn og tók þar við öllum arfi. Snemma um sumarið kvæntist hann bóndadóttur einni þar í sveitinni.

Leið svo fram á engjaslátt að ekki bar neitt til tíðinda. Eina nótt dreymir Jón þá skessuna. Minntist hann þá bænar hennar og rís upp þegar. Var þá myrkt af nótt og allra mesta stórviðri og rigning úti. Jón biður vinnumann sinn að bregða fljótt við og ná reiðhestum sínum tveimur. Vinnumaðurinn gjörir það. Býst Jón í snatri. Kona hans spurði hvað hann ætlaði að fara svona sviplega burtu um nótt og í slíku illviðri. Hann vildi ekkert um það segja, en bað hana að undrast ekki um sig þó hann yrði nokkra daga í burtu. Síðan fer Jón og ríður sem hann má. Gekk honum vel og kemur að hellinum. Er þá skessan úti og getur aðeins talað nokkur orð við Jón. Beið hann þar á meðan hún dó og dysjaði hana síðan þar sem hún hafði til tekið. Síðan tók hann brúna klárinn og var hann með reiðingi. Kisturnar stóðu úti og voru lyklarnir í. Teymdi Jón þá hestinn milli þeirra og smeygði silunum á klakkana. Síðan fór hann á stað með allt saman. Gekk honum vel norður. Settist Jón nú að búi sínu og var þá stórríkur orðinn. Bjó hann lengi og vel á föðurleifð sinni; varð hann hinn mesti lánsmaður og vel metinn af öllum. Og ekki kann ég þessa sögu lengri.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org