Öxará

Það var trú manna að Axará ætti að verða að víni eina stund á ári hverju. Einu sinni bar svo við að prestar tveir vöktu á Þingvöllum á gamlársnótt. Annar þeirra var ungur maður að aldri og var hann að semja ræðu til nýjársdagsins. Hinn presturinn var gamall og sat hann hjá hinum yngra honum til skemmtunar. Um miðnættið þyrsti hinn unga prest mjög og hljóp hann út í Axará með flösku og tók í hana vatn úr ánni. En þegar hann kom heim og fór að skoða vatnið sá hann að á því var vínlitur. Hann saup nú á og var þá hið bezta vín í flöskunni. Drukku nú báðir prestarnir úr flöskunni og settu hana síðan í glugga hjá sér. Að litlum tíma liðnum taka þeir aftur flöskuna og ætla nú að gjöra sér gott af víndropanum sem eftir var á flöskunni. En þá var hreint og tært vatn á henni. Þetta undruðust þeir mjög og töluðu margt um þetta. Hinn yngri prestur hét að reyna hvernig vínið yrði í ánni um sama leyti árið eftir. Leið nú svo að næstu gamlársnótt. Vóru þá prestarnir báðir á fótum og um miðja nótt fer hinn ungi prestur með flösku sína og fyllir hana úr ánni. Þegar hann kom heim sýndist honum blóðlitur á því sem í henni var. Hann sýpur á og finnur að blóð eitt er í flöskunni. Setur hann þá flöskuna frá sér og tekur hana aftur að litlum tíma liðnum. Var þá vatn í flöskunni, en ekkert blóð. Þeir ræddu margt um þetta prestarnir og þykjast nú ekki skilja í breytingum árinnar. En sú var trú manna að þá yrði Axará að blóði er mannfall yrði mikið á alþingi. Er það og sagt að svo varð í þetta skipti að á alþingi um vorið varð bardagi og mannfall ógurlegt.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org