Draugur ofsækir Baltasar Kormák og neitar að vera farþegi hans

„Þannig var að viku eftir tökur Mýrinnar fór ég að hitta Mugison. Á meðan keyrir vörubíll inn í hægri hliðina á Rammanum mínum og rústar hana,“ segir Baltasar Kormákur kvikmyndaleikstjóri.

Fréttablaðinu bárust sögur af afar sérkennilegum uppákomum í lífi Baltasars á tímabili. Óhöppum sem margir þeir sem trúa á aðra heima, myndu án nokkurs vafa skrifa á yfirskilvitleg fyrirbæri. Drauga og forynjur. Eftir að gripið var til tiltekinna aðgerða linnti óhappahrotu sem leikstjórinn virtist fastur í. Og síðan hefur allt leikið í lyndi í lífi Baltasars. Mýrin nú þegar, eftir aðeins viku, orðin fjórða tekjuhæsta kvikmynd Íslandssögunnar frá því að mælingar hófust. Á eftir Englum alheimsins, Hafinu og Djöflaeyjunni. 30 þúsund áhorfendur hafa þegar séð Mýrina. En áfram af sérkennilegri og dularfullri frásögn Baltasars — sem í fyrstu var tregur til að tjá sig af virðingu fyrir hinum látnu, en lét til leiðast.

„Við finnum reyndar út úr því hver var þar á ferð og sá var böstaður. Ég fór í kjölfarið á réttingaverkstæði sem Ræsir rekur og læt tjónameta bílinn. Skömmu síðar er ég að leggja við Þjóðleikhúsið. Einhverjir menn frá konunglega leikhúsinu vildu hitta mig út af Pétri Gaut. Þegar ég er að keyra í gegnum rafmagnshliðið aftan við leikhúsið í þrjúhundruðþúsundasta skiptið rek ég bílinn illa utan í og risti upp hægri hlið bílsins. Mjög illa.“

Nú var Baltasar hætt að standa á sama. Hann fer enn upp á réttingaverkstæði og lætur meta tjónið. Maðurinn þar spyr hvað sé eiginlega í gangi. Nú er rétt að taka fram að Baltasar hefur aldrei lent í tjóni með bíl sinn. Í tuttugu ár keyrt án óhappa.

Skömmu síðar, meðan Baltasar er að aka með börn sín, er hann skyndilega hundeltur og króaður inni við Snorrabraut af fjölda lögreglubíla. Lögreglumennirnir urðu kindarlegir þegar í ljós kom hver sat undir stýri, margir nýverið lagt honum lið við tökur Mýrarinnar. Þeir sögðu honum að þeir hefðu tekið hann í misgripum fyrir konu sem var á samskonar bíl og hafði keyrt um allt og á hvað sem fyrir var. Þeir töldu að hún væri komin á kreik á nýjan leik.

Baltasar fór fyrir tilviljun að taka til í hanskahólfi bíls síns, var að leita að pappírum fyrir réttingaverkstæðið, þegar hann sér plastpoka þar, innst inni út við hægri hlið bílsins – þar sem ágjöfin hafði verið.

„Mér bregður við. Fékk algert sjokk. Í pokanum var bein af manni. Spjaldhryggur. Moldugur. Og svo rifjast upp fyrir mér. Þegar við vorum í Hvalneskirkjugarði þar sem við fengum að grafa gröf vegna eins atriðis í myndinni á stað þar sem ekkert leiði var þá komum við niður á mannabein. Ég bað strákana að passa vel upp á þetta því þarna væri um minjar að ræða. Einhver hafði misskilið mig þannig að ég vildi halda upp á þetta sjálfur. Pokað beinið og sett í bílinn.“

Baltasar hafði samband við leikmyndagerðarmann sinn, Atla Geir Grétarsson. Og hann fór með beinið aftur á sinn stað, gróf niður og las yfir bæn.

„Og síðan hefur ekkert fyrir mig komið nema gott eitt,” segir Baltasar. Sem hefur það alveg á hreinu að þetta verði ekki útskýrt með því að líta til efnisheima einna. Svo virtist sem hinn látni hafi verið farþegi í bíl Baltasars og viljað fá friðinn.

timarit.is