Djákninn á Myrká

Í fyrri daga var djákni einn að Myrká í Eyjafirði; ekki er þess getið hvað hann hét. Hann var í þingum við konu sem Guðrún hét; hún átti að sumra sögn heima á Bægisá hinumegin Hörgár og var hún þjónustustúlka prestsins þar. Djákninn átti hest gráföxóttan og reið hann honum jafnan; þann hest kallaði hann Faxa.

Einhverju sinni bar svo til litlu fyrir jól að djákninn fór til Bægisár til að bjóða Guðrúnu til jólagleði að Myrká og hét henni að vitja hennar í ákveðinn tíma og fylgja henni til gleðinnar aðfangadagskvöld jóla. Dagana áður en djákninn fór að bjóða Guðrúnu hafði gjört snjóa mikla og ísalög, en þann sama dag sem hann reið til Bægisár kom asahláka og leysing og þegar á leið daginn varð áin ófær fyrir jakaferðum og vatnagangi á meðan djákninn tafði á Bægisá. Þegar hann fór þaðan hugði hann ekki að því sem skipazt hafði um daginn og ætlaði að áin mundi enn liggja sem fyrr. Hann komst yfir Yxnadalsá á brú, en þegar hann kom til Hörgár hafði hún rutt sig. Hann ríður því fram með henni unz hann kemur fram á móts við Saurbæ, næsta bæ fyrir utan Myrká; þar var brú á ánni. Djákninn ríður á brúna, en þegar hann er kominn á hana miðja brestur hún niður, en hann fór í ána. Morguninn eftir þegar bóndinn á Þúfnavöllum1 reis úr rekkju sér hann hest með reiðtygjum fyrir neðan túnið og þykist þekkja þar Faxa djáknans á Myrká. Honum verður bilt við þetta því hann hafði séð til ferða djáknans ofan hjá daginn áður, en ekki orðið var við að hann færi til baka og grunaði því brátt hvað vera mundi. Hann gengur því ofan fyrir túnið; var þá sem honum sýndist að þar var Faxi allur votur og illa til reika. Gengur hann síðan ofan að ánni, ofan á svokallað Þúfnavallanes; þar finnur hann djáknann rekinn örendan á nesinu framanverðu. Fer bóndi þegar til Myrkár og segir tíðindin. Djákninn var mjög skaddaður á höfðinu aftanverðu af ísjaka er hann fannst. Var hann svo fluttur heim til Myrkár og grafinn í vikunni fyrir jólin.

Frá því djákninn fór frá Bægisá og til þess á aðfangadaginn hafði engin fregn farið milli Myrkár og Bægisár um þessa atburði neina sökum leysinga og vatnagangs. En á aðfangadaginn var veður stilltara og hafði runnið úr ánni um nóttina svo að Guðrún hugði gott til jólagleðinnar á Myrká. Þegar leið á daginn fór hún að búa sig og þegar hún var vel á veg komin með það heyrði hún að það var barið; fór þá önnur kona til dyra sem hjá henni var, en sá engan úti enda var hvorki bjart úti né myrkt því tungl óð í skýjum og dró ýmist frá eða fyrir. Þegar stúlka þessi kom inn aftur og kvaðst ekki hafa séð neitt sagði Guðrún: „Til mín mun leikurinn gjörður og skal ég að vísu út ganga.“ Var hún þá albúin nema hún átti eftir að fara í hempuna. Tók hún þá til hempunnar og fór í aðra ermina, en fleygði hinni erminni fram yfir öxlina og hélt svo í hana. Þegar hún kom út sá hún Faxa standa fyrir dyrum og mann hjá er hún ætlaði að væri djákninn. Ekki er þess getið að þau hafi átt orðræðu saman. Hann tók Guðrúnu og setti á bak og settist síðan sjálfur á bak fyrir framan hana. Riðu þau þá svo um hríð að þau töluðust ekki við. Nú komu þau til Hörgár og voru að henni skarir háar, en þegar hesturinn steyptist fram af skörinni lyftist upp hattur djáknans að aftanverðu og sá Guðrún þá í höfuðkúpuna bera. Í þeirri svipan rak skýin frá tunglinu; þá mælti hann:

„Máninn líður,
dauðinn ríður;
sérðu ekki hvítan blett
í hnakka mínum,
Garún, Garún?“2

En henni varð bilt við og þagði. En aðrir segja að Guðrún hafi lyft upp hatti hans að aftan og séð í hvíta kúpuna; hafi hún þá átt að segja: „Sé ég það sem er.“ Ekki er sagt af samræðum þeirra fleirum né ferðum fyrr en þau komu heim að Myrká og fóru þau þar af baki fyrir framan sáluhliðið; segir hann þá við Guðrúnu:

„Bíddu hérna, Garún, Garún,
meðan ég flyt hann Faxa, Faxa
upp fyrir garða, garða.“

Að því mæltu fór hann með hestinn, en henni varð litið inn í kirkjugarðinn. Sá hún þar opna gröf og varð mjög hrædd, en tekur þó það til bragðs að hún grípur í klukkustrenginn. Í því er gripið aftan í hana og varð henni þá það að happi að hún hafði ekki fengið tíma til að fara nema í aðra hempuermina því svo var sterklega til þrifið að hempan gekk sundur um axlarsauminn á þeirri erminni er hún var komin í. En það sá hún síðast til ferða djáknans að hann steyptist með hempuslitrið er hann hélt á ofan í gröfina opnu og sópaðist moldin frá báðum hliðum ofan yfir hann. En það er frá Guðrúnu að segja að hún hringdi í sífellu allt til þess að bæjarmenn á Myrká komu út og sóttu hana; því af öllu þessu var hún orðin svo hrædd að hún þorði hvergi að fara né heldur hætta að hringja; því hún þóttist vita að hún hefði átt þar við djáknann afturgenginn þó henni hefði ekki áður komið nein fregn um lát hans. Enda gekk hún úr skugga um að svo hafði verið er hún náði tali af Myrkármönnum er sögðu henni upp alla sögu um lát djáknans og hún aftur þeim af ferðum sínum.

Þessa sömu nótt þegar háttað var og búið að slökkva ljósið kom djákninn og ásótti Guðrúnu, og voru svo mikil brögð að því að fólkið varð að fara á fætur og varð engum svefnsamt þá nótt. Í hálfan mánuð eftir þetta mátti hún aldrei ein vera og varð að vaka yfir henni hverja nótt. Sumir segja að presturinn hafi orðið að sitja á rúmstokknum hjá henni og lesa í Saltaranum. Nú var fenginn galdramaður vestur í Skagafirði. Þegar hann kom lét hann grafa upp stein einn mikinn fyrir ofan tún og velta heim að skálastafni. Um kvöldið þegar dimma tók kemur djákninn og vill inn í bæinn, en galdramaðurinn hneppir hann suður fyrir skálastafn og setur hann þar niður með særingum miklum, veltir hann síðan steininum ofan á og þar á djákninn að hvíla enn í dag. Eftir þetta tók af allan reimleik á Myrká og Guðrún að hressast. Litlu seinna fór hún heim til sín að Bægisá og er sögn manna að hún hafi síðan aldrei orðið söm og áður.

Athugasemdir. Það er í frásögur fært að þegar Þórólfur Skólmsson bjó á Myrká hafi þar hvergi sézt steinn. Eitt sinn átti hann að hafa farið þar upp í fjall og sótt þangað stein einn mikinn og borið hann heim að bæ og sett niður hjá skálastafni og höggvið ker ofan í hann miðjan, haft síðan steininn til að lýja á honum járn og látið gefa smalahundinum í kerinu á sumrum. Þegar Páll prestur Jónsson kom að Myrká fyrir nítján árum hafði hann söguna um steininn sér hugfasta og sá þar stein einn mikinn hjá skálastafninum sem allur var sokkinn í jörð svo aðeins sá á eina röðina. Hann spurði formann sinn um steininn, en hann sagði að hann hefði komið þar fyrir fjörutíu árum; kvaðst hann hafa ætlað að grafa hann upp, en konan sín hefði beðið sig að gjöra það ekki því það væri almæli að djákninn lægi undir honum, og sagði hann séra Páli söguna um djáknann. Séra Páll gróf svo steininn upp og mundu fjórir menn naumast hefja hann þó röskvir væru, svo er hann mikill. Ker er höggvið ofan í hann miðjan. Steinninn er teningsmyndaður og þó aflangur. Hann er ein alin, fimmtán þumlungar á lengd, en tuttugu þumlungar á breidd á hliðinni sem upp snýr, á hæð tuttugu og einn þumlungur. Kerið er ferhyrnt, átta þumlungar á lengd, sjö á breidd og fjórir á dýpt.

Sumir segja að djáknasagan eigi heima á Völlum í Svarfaðardal; stúlkan átti að hafa verið á Stafni.3 Ráðsmaður frá Völlum átti að hafa beðið hennar einhvern tíma á jólaföstunni, en fékk afsvar og hézt við hana. Á leiðinni heim drukknaði hann í Svarfaðardalsá því hláka var og vatnagangur. Á aðfangadagskvöld jóla var barið að dyrum á Stafni, en Guðrún fór seinast út sjálf og er sagan frá því eins og hin, en þó ógreinilegri og ekki í sambandi við neinn stein. Hún má því heita ómerkileg hjá hinni. Í þessari sögu er þess ekki getið hvar ráðsmaðurinn hafi fundizt eða hver hafi fundið hann.


1 Þúfnavellir eru næsti bær fyrir utan Saurbæ og liggja nærri saman túnin.

2 Draugum er ekki gefið að nefna Guðs nafn né heldur nokkurt það orð sem guðs nafn er í og því á draugurinn að hafa nefnt Garún fyrir Guðrún.

3 Eyðikot frá Völlum fram í Vallaafrétt.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org