Draugur deyr

Á þeirri tíð þegar síra Þórsteinn1 var prestur á Dvergasteini bar það þar til eitt kveld að barið var að dyrum og strax var gengið til dyra, en enginn sást kominn. En er sá var kominn inn sem til dyranna gekk var aftur barið og aftur gengið til dyranna, en enginn varð séður að heldur; en þegar maðurinn var aftur kominn í bæinn var barið í þriðja sinn, og þá sagði prestur að sá sem gengi til dyranna skyldi segja þegar út kæmi hátt og skýrt: „Ef nokkur er kominn sem vill finna prestinn þá gangi hann inn.“ Sá sem út gekk gerði svo, og þá kom maður stór vexti með bjart hár og skinnfataður og gekk snúðugt inn og upp í hús þar sem prestur var, en meðan hann var að berja hafði prestur klæðzt messufötum og beið hans svo, og þegar hann kom inn vísaði prestur honum til sætis þar í bekk. Síðan spyr prestur hann hvaðan hann sé og hvað hann ætli að fara. Þá mælti hinn aðkomni: „Ég er vestan af Vesturlandi, undan Jökli; ég var þar á sjó í dag, en skipið sem ég var á tapaðist og allir menn drukknuðu, en ég sem var formaður skipsins barst að landi aðeins ódauður, en þar sem ég lá máttþrotinn í flæðarmálinu kom að mér maður og hleypti í mig illum anda og skipaði mér að fara austur hingað og drepa þig.“ Síðan þagnaði hann. En prestur spurði hann þá hvert hann vildi ekki láta skrifta sér og þiggja svo hjá sér sakramenti, og það þekktist hann. Síðan skriftaði prestur hönum og veitti honum sakramenti og alla þjónustu sem öðrum kristnum manni, en þegar það var búið var sem hann sofnaði snögglega og fannst þá ekkert lífsmark með honum framar. Var hann svo flettur klæðum og búið um líkið eftir siðvenju og síðan greftraður og þannig að öllu meðhöndlaður sem hver annar maður sem kristilegan viðskilnað öðlast.


1 Aðrir nefna Eirík prest í Vogsósum. [Hdr.] Þorsteinn Jónsson var prestur á Dvergasteini 1769-1800.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org