Uppvakningar

Uppvakningar [voru] hafðir til ýmsra framkvæmda so sem sendir til [að] drepa óvini þeirra er vöktu þá upp eða spilla hagsmunum þeirra; aðrir skyldu hafðir til vinnuléttirs. En þeir sem vöktu þá upp skyldu verða fyrst að sleikja þá utan og fægja, síðan glíma við þá og ná yfirburðum yfir þeim so þeir gætu komið þeim niður aftur, annars mundu þeir snúast móti þeim er vöktu þá upp. Ýmist áttu deyjandi menn að vera beðnir um þénustu sína eftir dauða þeirra og þá áttu þeir er það föluðu að [vera] ónæddir af hinum næstu þrjár nætur, en yrði það vel afstaðið með yfirburðum urðu draugarnir [að] vera hinum undirgefnir. Ýmist áttu þeir að vera eftir skildir á bústöðum þeirra er frá stöðunum viku, þeim [til] foreyðingar og óbúsælda er við tóku, eða þeir urðu þar eftir látna unnusta sína so sem draugar J[óns] Ísleifssonar á Felli1 er áttu [að] valda því að jökullinn hljóp á Fellsland þá þeir voru reknir þaðan. Og um draugadugnað var sagt að ort hefði verið vísa þessi:

Mikið gengur Melstað á,
menn þar lúa hrinda.
Tíu raka, en tólf þar slá
og tuttugu heyið binda.

Þó fylgdi það oft þessum sögum að óbúsælt hefði verið á þeim heimilum.

Afturgöngur nefndust þeir sem af hefndargirni, ektaskaparást eða -löngun við trúlofaða er sviku hana, eða auðselsku virtust vera á ferð eftir dauðann og sagt er að fylgi í níunda lið eða lengur þeim sem [þeir] voru hugfastastir í lífinu, og áreittu þá ýmislega, sætu um að villa þá í líftjón, olluðu þeim óbúsæld, gerðu öðrum illt þegar so bæri til að hinir kæmu heim á bæi þeirra og voru þá nefndar fylgjur sem birtust í vondum draumum, ollu byltum og krankleik í gripum. En væri deilt á þá sem fylgjurnar áttu og að komu og þeim brigzlað um þær, áttu þær aldr[ei] eftir það [að] óþægja þeim sem brigzlaði. Sumir þeirra er þessar vofur fylgdu áttu [að] verða að skammta þeim daglega til að fríast við ofríki þeirra.

Þetta og af því leiðandi ættarlýti voru kallaðar dísir. En innihaldsmeira var það orð þegar með því var meint allt óþægilegt og óviðráðanlegt í lífinu er náði til þess er kallað var mótlætisforlög, svo sem óhöpp eða krankleikar orðsakaðir af tilfellum sem oft var eignað illum aðsóknum. En að öðru leyti eru dísafræði óljós.


1 Jón Ísleifsson (d. 1732) sýslumaður bjó á Felli í Suðursveit.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org