Mjaðurt og fleiri grös

Mjaðurt hefur og verið höfð til að vita hver stolið hafi. Hana skal taka sjálfa Jónsmessunótt um lágnættið, láta í munnlaug við hreint vatn og leggja urtina á vatnið. Fljóti hún þá er það kvenmaður, en sökkvi hún þá er það drengur. Skugginn af jurtinni sýnir hver maðurinn er. Þar við á að lesa þenna formála: „Þjófur, ég stefni þér heim aftur með þann stuld er þú stalst frá mér með svo sterkri stefnu sem guð stefndi djöflinum úr paradís í helvíti.“

Freyjugras er haft til þess að vita hver frá manni stelur. Fyrst skal láta það liggja þrjár nætur í vatni, leggja síðan undir höfuð sér og sofa á og mun maður þá sjá þann er stolið hefur.

Lækjasóley. Náttúra þessa grass er furðanlegri því ef það er tekið er sól er í ljónsmerki (frá 13. júlí til 12. ágúst) og laugað í lambsblóði og lögð þar við úlfstönn og síðan vafið í lárberjatré (laufi?) og borið á sér megnar enginn að tala við þann mann nema friðsöm orð. Ef frá manni er stolið og maður leggur það við auga sér mun þjófurinn sjást og allar hans athafnir. Ef sóleyin er látin í það hús þar sem þær konur eru sem spilla hjónabandi sínu geta þær ekki fyrr burtu komizt en sóleyin er burt tekin.

Ef sortulyng er haft í grápappír og borið á sér ver það mann fyrir öllum vofum nema nefndar séu. Berin á sortulynginu heita mulningar.1 Ef menn borða þau skríða menn kvikir af lúsum. Því eru þeir stundum kallaðir lúsamulningar.

Enn eru nokkur grös er ég veit engar sögur um, en sem þó er líklegt að séu til eða hafi verið að minnsta kosti og eru þau samsett af nafni kölska, t. d. fjandafæla, og þarf ekki meira en heyra nafnið til þess að því grasi fylgi magn mikið, enda er þess áður getið að það sé vörn við illu.2 Hin eru skollafingur, skollafótur, skollagras, skollahár, skollakál, skollareipi. Stundum er ekki auðið að sjá hvort meir ræður nafni grassins lækningamáttur þess eða töframagn. Svo er t. d. með blóðrótina sem í raun réttri stöðvar blóðrás, en á þó að vera höfð meðfram til töfrabragða.


1 Múðlungar segja menn fyrir vestan.

2 Sjá þáttinn af Galdra-Leifa.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org