Hjónagras

Hjónagras hefur tvær rætur, aðra þykka, en aðra skarpa (granna). Þykkri rótin örvar kvensemi og líkamlega lysting, nemur burt hryggð, eykur gleði og endurnærir sálarkrafta mannsins. Skarpari rótina skal gefa manni til hreinlífis.

Þetta gras er almennt kallað brönugras, og enn eru fleiri nöfn á því, t. d. elskugras, Friggjargras, graðrót og vinagras. Brönugrasanafnið er sjálfsagt dregið af grösum þeim sem Brana gamla fékk Hálfdáni fóstra sínum til að ná með ástum Marsibilar Ólafsdóttur Englakonungs.1

Brönugrös vaxa víða á Íslandi og er stilkurinn stífur og fagurgrænn með blöðum út úr á þrjá vegu og blómhöfði upp af sem Eggert Ólafsson segir að verði purpurarautt.

Mohr kannast við þá kreddu að menn ímyndi sér eins á Íslandi og annarstaðar að gras þetta veki losta2 og ástir milli karls og konu og stilli ósamlyndi milli hjóna ef þau sofa á því. En nú er helzt í mæli að rætur grassins séu kröftugastar og séu þær ávallt tvær undir einum stilk, önnur hvöt, en önnur blauð. Þegar þær eru skornar af og báðum fleygt í vatn flýtur hin hvata, en sú blauða sekkur.

Þegar maður vill hafa rót þessa til að vekja ástir skal sá sem leitar ásta með henni grafa vel í kringum rætur grassins og gæta þess vandlega að enginn anginn slitni af hvorugri rótinni þegar hann tekur þær úr jörðu; annars missa þær kraft sinn. Að því búnu skal leggja aðra rótina undir höfuð þess sem maður vill ná af ástum, en haga þó svo til að hann viti ekkert af því og sofi á rótinni, en sjálfur skal maður sofa á hinni. Er það sagt að það bregðist varla að maður nái ástum þess sem eftir er leitað ef rétt er að farið.


1 Hálfdánar saga Brönufóstra, 10. kap.

2 Mohr segir að gras þetta sé gefið daufum og fjörlausum törfum í Svíþjóð og á Færeyjum til að örva þá til kúnna.

Источник: Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862), Jón Árnason.

Текст с сайта is.wikisource.org